[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 21. mars 2016. Hún birtist þar svona.]
Nú er verið að rífa hús við Tryggvagötu 14. Þetta var laglegt gamalt hús. Síðustu árin hefði samt líklega mátt sinna viðhaldi þess betur. Það var líka svolítið þröngt um það þar sem það stóð við götuna og sneri gaflinum út að höfn. Á tímabili var rekin veitingastofa í húsinu þar sem hægt var að fá sér að borða ódýran og góðan asískan mat.
Ég tók vel eftir þessu húsi fyrir nokkrum árum. Þá hafði ég um talsvert skeið saknað dúfna úr borginni. Dúfur eiga heima í borgum. Þegar ég var lítill voru alltaf dúfur í miðbænum. En svo voru allar dúfur horfnar. Ég spurðist fyrir um málið, heyrði sögusagnir um að ástæðan væri sú að bæjarstjórnin hafi staðið fyrir einhvers konar útrýmingarherferð gegn borgardúfunum. Því miður trúði ég því vel upp á bæjaryfirvöldin að þau hefðu náð fullkomnum árangri í þessari hljóðlátu herferð gegn hinum indælu fleygu borgarbúum. Ég kannaði málið ekki nánar.
Svo var það eitt sinn á kvöldgöngu fyrir fáeinum árum að ég heyrði vængjaslátt í kringum mig. Ég sá mér til undrunar og ánægju að þarna var þá dúfa á flugi. Hún lenti á gangstéttinni fyrir framan mig og spígsporaði svolítið um. Ég fylgdist undrandi með. Svo flögraði dúfan yfir götuna og fór að ganga um á stéttinni hinum megin. Þar var sjoppa og kannski voru molar af pulsubrauði á gangstéttinni. Ég fór að svipast um í kringum mig. Gat verið að ég hefði heyrt í fleiri dúfum? Þegar ég hafði skyggnst svolítið um og gengið á hljóð sem ég heyrði sá ég margar fleiri dúfur á húsþaki í grenndinni. Þær stjákluðu um uppi á mæni húss sem stóð þar hjá þar sem hús Benedikts Gröndals stóð áður. Þarna voru margar dúfur uppi á þakinu og stjákluðu um og reigðu sig. Hvað hafði gerst?
Kvöldið eftir gekk ég aftur á sama stað og hafði myndavél með mér. Ég tók mynd af dúfunum, þar sem þær stjákluðu enn um á þessu eina húsþaki. Ég tók nokkrum sinnum myndir af þeim eftir þetta. Oftast stóðu þær á mæninum, en stundum stóðu þær í röð á þakrennu hússins (sjá mynd). Húsið þar sem ég fann dúfurnar var þetta hús, Tryggvagata 14. [*]
Mynd: Þorbergur Þórsson.
Eftir þetta fór ég að taka eftir því að dúfurnar í borginni virtust sem betur fer vera farnar að hjarna við. Nú orðið sér maður stundum dúfur aftur á Lækjartorgi og líka niðri við Tjörn. Svo er sagt að þær haldi til við Sundahöfn og í Laugardalnum.[1]
Þó að dúfunum hafi ekki verið alveg útrýmt, hefur húsið þar sem dúfurnar fundu sér skjól í vesturbæ Reykjavíkur verið rifið. Í staðinn fyrir þetta hús, sem var byggt árið 1898[2] mun nú standa til að byggja margfalt stærra hús fyrir hótel.[3]
Húsbyggjendur hugsa sér líklega að ferðamenn vilji koma til landsins og gista í nýja hótelinu, ekki síst til að geta svo gengið um miðbæ Reykjavíkur og notið þess að horfa á hin fallegu hús sem hér voru byggð fyrr á tímum, þó að þessum húsum fari nú augljóslega fækkandi. Eins og allir vita er líka margt fleira að sjá á Íslandi en gömlu húsin í miðbæ Reykjavíkur, til dæmis Gullfoss og Geysi og ýmislegt annað. Lengi vel var líka hægt að fá að skoða handritin í Árnagarði sem Danir sendu okkur úr sínum góðu geymslum í Kaupmannahöfn. Það er að vísu ekki lengur hægt.[4] Þá má ekki gleyma Þjóðminjasafninu og listasöfnunum sem eru beinlínis opin almenningi.
Hótelið sem á að reisa mun svo stórt að ekki dugir minna undir það en lóðir margra húsa sem þarna hafa staðið. Nú er búið að rífa nokkur þessara húsa, en tvö hús voru líka flutt burt af reitnum hér fyrr á árum.
Annað húsið var tekið upp af lóð sinni fyrir nokkrum áratugum. Það stóð við Vesturgötu 18, á horni Vesturgötu og Norðurstígs. Þetta var fallegt hús sem ég man vel eftir úr barnæsku. Því var komið fyrir á nýjum húsgrunni á Bókhlöðustígnum og þar hefur það notið sín prýðilega eftir það. Í staðinn fyrir þetta laglega hús var útbúið bílastæði á götuhorninu sem nú hefur verið girt af vegna framkvæmda við fyrirhugaða hótelbyggingu.
Fyrir nokkrum árum var hús Benedikts Gröndals (1826 – 1907) sem einnig stóð á þessum reit flutt í burtu. Bæjaryfirvöld hafa nú látið setja það ofan á nýjan húsgrunn við Fischersund, þann stutta stíg í Grjótaþorpinu. Hús Gröndals hafði verið lengi afkróað inni á lóð sinni þarna við Vesturgötuna. Það var orðið einskonar bakhús, stóð næstum eins og ofan í gjótu umkringt öðrum húsum og bak við hátt steinhús. Steinhúsið háa stendur enn við Vesturgötu 16. Það var reist árið 1938 sunnan megin í garðinum sem áður var garður skáldsins og varpaði þar dimmum skugga á hús Gröndals áratugum saman.
Þannig hafa tvö hús verið flutt af þessum litla reit og verið með góðum árangri endurbyggð annars staðar í miðbænum.
En húsið við Tryggvagötu 14 var einfaldlega rifið. Það vekur upp spurningu um hvernig við förum með okkar fátæklega byggingararf. Næstum öll hús sem byggð voru í landinu fyrir árið 1900 eru horfin af yfirborði jarðar. Samt hefur þjóðin búið í landinu í meira en ellefu hundruð ár.
Hin einstæðu torfhús okkar voru markvisst jöfnuð við jörðu frá því um 1940 og allt fram á okkar daga. Aðeins örfá standa eftir. Heillegir sveitabæir með bæjarhúsum úr torfi og grjóti og útihúsum úr sama byggingarefni eru sárafáir ef nokkrir eftir.[5]
Timburhúsin okkar og bárujárnshúsin hafa verið rifin og brennd og nú síðustu árin hafa fjáraflamenn legið á því lúalaginu að kaupa gömul hús í miðborginni, í þeim sérstaka tilgangi að láta þau drabbast þar niður fyrir sjónum almennings. Þegar húsin hafa verið orðin nógu léleg munu þeir í einhverjum tilvikum hafa getað fengið bæjarstarfsmenn til að viðurkenna orðinn hlut og heimila niðurrif þeirra. Í staðinn hafa eigendurnir fengið að byggja ódýr og stór og nútímaleg hús með háu nýtingarhlutfalli eins og sagt er.
Það er líka áleitin spurning af hverju þurfi bókstaflega að láta gömlu húsin drabbast smám saman niður með áralangri vanrækslu og eyðileggjast til þess eins að fjáraflamennirnir geti byggt sífellt fleiri sviplaus og stór nútímahús í gamla bænum. Löggjafinn ætti raunar að setja blátt bann við slíkum aðförum og borgin að taka hús sem verða fyrir þessari meðferð eignarnámi af hinum ósvífnu eigendum.
Í einstöku tilvikum kann samt að vera eðlilegt að byggja ný og stór hús í miðbæ Reykjavíkur í stað gamalla og smárra húsa. Og sama gildir um aðra þéttbýliskjarna í landinu. Í ljósi þess hve fátæklegur byggingararfur þjóðarinnar er, er þó vandséð, að það geti verið eðlilegt að þetta gerist jafn oft og raun ber vitni.
Í þeim tilvikum sem gömul hús hafa af einhverjum brýnum ástæðum orðið svo þversum við samtímann, að nauðsynlegt verður að rýma til fyrir nútímalegri byggingum, mætti hugsa sér aðra reglu en þá, að fyrst þurfi að eyðileggja gamla húsið. Nýja reglan gæti sem best verið sú, að þurfi að byggja nýtt hús á lóð þar sem gamalt hús stendur fyrir, sé gamla húsið ekki endilega eyðilagt, heldur flutt og sett niður á nýjan stað, sem skipulagt hefur verið til þeirra hluta. Sem betur fer kunna margir Íslendingar að meta gamla húsagerðarlist og vilja gjarna búa í gömlum timburhúsum, eins þó að þau séu ekki lengur á sínum upphaflegu lóðum.
Ef til vill þarf einhvern stuðning almannavaldsins til þess að úrræði sem þetta verði ekki of dýrt og íþyngjandi fyrir einstaklingana sem kunna að meta byggingararfleifð okkar og vilja varðveita hana.
[*] Þegar ég hafði birt þessa grein, kom einn lesandi með þá athugasemd við hana, að eigandi hússins að Tryggvagötu 14 hefði ræktað dúfur í húsinu. Þetta vissi ég ekki fyrir.
[1] Upplýsingar um þetta eru fengnar úr rúmlega tíu ára gamalli grein á vísindavef Háskóla Íslands, sjá: Jón Már Halldórsson. „Hvar eru allar dúfurnar sem voru alltaf í miðbæ Reykjavíkur fyrir nokkrum árum?“Vísindavefurinn, 1. desember 2005. Sótt 19. mars 2016. http://visindavefur.is/svar.php?id=5450. Þarna kemur fram að dúfur hafi verið teknar af lista yfir meindýr í Reykjavík árið 2003 og þá hafi verið hætt að deyða þær, en áður voru þær drepnar árlega í mismiklum mæli.
[2] Upplýsingar af vef fasteignamats ríkisins, sóttar 19. mars 2016. Forsætisráðherra sagði frá niðurrifi þessa húss á facebooksíðu sinni þann 15. mars 2016 og sagði þar að húsið væri friðað.
[3] Sjá upplýsingar á facebooksíðu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, 15. mars 2016 og í Morgunblaðinu sama dag.
[4] Þó að almenningur geti ekki fengið skoða handritin í Árnagarði í Reykjavík má þó sjá einhver handrit á þremur sýningarstöðum í borginni. Fólk sem kann íslensku getur lesið sér til um það á vef Árnastofnunar með því að fara á þessa slóð: http://www.arnastofnun.is/page/handrit_a_syningum . Ég fann ekki leiðsögn um þetta á erlendum málum á vef Árnastofnunar.
[5] Það eru nokkrir íslenskir bæir eftir uppistandandi í veröldinni, til dæmis sjálfar Keldur á Rangárvöllum. En sjaldgæft er að sjá íslenskan bæ þar sem útihúsin hafa fengið að halda sér annars staðar. Fræðast má um byggingararfleifð Íslendinga til dæmis á Árbæjarsafni (sjá http://borgarsogusafn.is/ )Skógasafni (sjá: http://www.skogasafn.is/) og á safni sem heitir Íslenski bærinn (sjá http://islenskibaerinn.is/ )