[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 15. mars 2021. Hún birtist þar svona.]
Um daginn hélt ég því fram í pósti hér á Stundinni, að það væri auðveldara fyrir eyríki að verja sig fyrir farsóttum eins og þeirri sem nú leikur lausum hala í veröldinni heldur en fyrir ríki sem eru staðsett á meginlöndum. Tilefni þeirrar umfjöllunar var að Íslendingar virðast telja árangur sinn í sóttvarnarmálum vera alveg einstakan á heimsvísu. Slíkt er að vísu alveg saklaust auk þess sem það er auðvitað alvanalegt.
En meinið er að mig grunar að þessi skoðun landsmanna auðveldi sérhagsmunahópum, sér í lagi talsmönnum ferðaþjónustunnar, að sannfæra almenning um að réttlætanlegt sé að draga úr sóttvörnum til að fá fleiri ferðamenn inn til landsins. Hér gangi allt nefnilega svo einstaklega vel og engin hætta sé á ferðum. Þessar raddir höfum við oft heyrt á undanförnu ári, og því miður hafa stjórnvöld hlustað of mikið á þær. Auk þess virðast stjórnvöld hafa sannfærst um að þessi málstaður minni sóttvarna hafi hagfræðina á bak við sig, að miklar sóttvarnir borgi sig ekki. En mætir hagfræðingar á borð við Gylfa Zöega og Þórólf Matthíasson hafa ítrekað bent á að lýðheilsusjónarmið og hagræn sjónarmið benda í eina átt: það er betra bæði fyrir heilsu landsmanna og fyrir efnahag þeirra, þegar á heildina er litið, að girða alveg fyrir að kóvidveiran geti komið inn í landið, heldur en tefla á tvær hættur til að þjóna sérhagsmunum og reyna að bæta sérstaklega hag hóteleigenda, rútubílafyrirtækja og annarra sem við ferðaþjónustu starfa. Betra sé að láta almannahag ráða ferðinni, en bæta um leið þessum aðilum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir með sérstökum efnahagsaðgerðum.
Það er auðveldara að verja eyríki fyrir farsóttum heldur en ríki sem eru á meginlöndum og eru þess vegna umkringd nágrannaríkjum. Rökin fyrir því eru þau að eyríki hafa venjulega tiltölulega fáa snertipunkta við umheiminn, nefnilega hafnir og flughafnir. Á slíkum stöðum taka tollverðir á móti ferðamönnum og hafa auk þess ýmislegt eftirlit með þeim. Sumum ferðamönnum er bannað að koma inn í landið af ýmsum ástæðum, til dæmis í sóttvarnarskyni. Landamæraeftirlit er margfalt auðveldara og ódýrara í eyríkjum heldur en í ríkjum á meginlöndunum sem hafa löng landamæri og vegi þvers og kruss yfir þau milli landanna.
Þegar ég skoðaði gögn frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni um greind smit og manndauða af völdum hinnar hættulegu farsóttar kom líka í ljós að miklu betur hefur gengið að verjast farsóttinni í þeim nágrannalöndum okkar sem eru eylönd, það er að segja í Færeyjum og á Grænlandi, heldur en í nágrannaríkjum okkar á meginlandinu. Reyndar verður ekki betur séð en að miklu betur hafi gengið í Færeyjum og Grænlandi til þessa heldur en á Íslandi. Árangur Íslendinga í sóttvarnarmálum er einhvers staðar á milli árangurs Grænlendinga og Færeyinga annars vegar og árangurs Finna og Norðmanna hins vegar. Þetta má sjá með því að umreikna hvert mannfall hefði orðið á Íslandi af völdum þessarar farsóttar, ef smit og manndauði hefði verið jafn mikill hér að tiltölu og hefur verið í þessum nágrannalöndum. Sárafáir hafa greinst smitaðir á Grænlandi til dæmis og enginn dáið. Ef jafn vel hefði tekist til hjá okkur og Grænlendingum hefðu til dæmis aðeins smitast um 200 manns hér á landi í stað þeirra ríflega 6000 sem þegar hafa smitast og jafnvel enginn dáið. Ef okkur hefði tekist að hafa sambærilegt smit- og dánarhlutfall og í Færeyjum hefðum við líka fengið miklu betri niðurstöðu en raun varð á, og líklega aðeins misst um 6 – 7 einstaklinga í gin sjúkdómsins. En ef smit- og dánarhlutfall hér á Íslandi hefði líkst því sem hefur gerst í meginlandsríkjunum Noregi og Finnlandi, hefðu dáið hér ríflega 40 manns miðað við norsku tölurnar en rúmlega 50 ef smit og dánarhlutfall væri áþekkt og í Finnlandi. Rétt er að taka fram að árangur Finna og Norðmanna verður að teljast góður, jafnvel mjög góður, miðað við þann árangur sem nágrannalönd þeirra á meginlandinu hafa náð. En árangur Íslands er sem sagt mitt á milli árangurs þessara tveggja meginlandsríkja og árangurs Færeyja og Grænlands, þar sem langsamlega best hefur gengið.
En nú væri fróðlegt að bera árangur Íslands fram til þessa saman við árangur í eyríkjum sem eru fjarlægari okkur en þessi norrænu lönd.
Vel hefur gengið í sóttvarnarmálum í Ástralíu og Nýja Sjálandi, en bæði löndin eru eyríki. Auk þess að teljast vera stórt land og sérstök heimsálfa er Ástralía fjölmennt land eða ríflega 70 sinnum fjölmennara en Ísland. Til þessa hafa þar dáið 909 einstaklingar úr kóvid farsóttinni. Það er miklu minna að tiltölu heldur en gerst hefur hér uppi á Íslandi og jafnast á við að um 12 – 13 Íslendingar hefðu núna farist af þessum sökum. Nýja Sjáland er líka miklu fjölmennara ríki en Ísland eða um 13 til 14 sinnum fjölmennara land. Þrátt fyrir að landið sé svona miklu fjölmennara hafa samtals færri dáið úr farsóttinni þar heldur en hér á Íslandi, eða 26 manns. Ef sambærilegur árangur hefði náðst á Íslandi og í Nýja Sjálandi hefðu aðeins tveir einstaklingar dáið hér í stað allra þeirra 29 Íslendinga sem nú þegar hafa látist af völdum farsóttarinnar.
Á Karíbahafi eru nokkur ríki og sum þeirra eru eiginleg eyríki, eru eina ríkið á viðkomandi eyju. Meðal þessara eyríkja má nefna Kúbu og Jamaíku. Kúba er ríflega 30 sinnum fjölmennara land en Ísland, og hefur verið undir stjórn kommúnistaflokks Kúbu um áratugaskeið. Þar hefur verið talið vera tiltölulega gott heilbrigðiskerfi þrátt fyrir mikla fátækt í landinu. Sú staðreynd að dánarhlutfall þeirra sem smitast hafa af kóvid farsóttinni þar er áþekkt og hér á landi, í auðugu landi með úrvals heilbrigðiskerfi, virðist til dæmis benda til að heilbrigðiskerfið þar sé gott. En til þessa hafa 370 einstaklingar dáið af völdum kóvid farsóttarinnar á Kúbu, en þar hafa ríflega 60 þúsund manns verið greindir smitaðir af veikinni. Ef Íslendingar hefðu borið gæfu til að ná sama árangri og Kúbumenn væru ekki fleiri en 12 manns dánir úr kóvidfarsóttinni hér á landi núna. Jamaíkaeyja liggur ekki langt frá Kúbu og þar búa ríflega 8 sinnum fleiri íbúar en á Íslandi. Jamaíka er mikið ferðamannaland og er hluti af breska samveldinu, með Elísabetu bretadrottningu sem drottningu í ríkinu. Í Jamaíku hafa rúmlega 30 þúsund manns greinst með kóvid veikina og til þessa hafa þar 485 dáið úr henni. Ef kóvid veikin hefði leikið Íslendinga jafn grátt og Jamaíkubúa, hefðu dáið hér um helmingi fleiri en hér hafa þó dáið, tæplega 60 manns. Á Jamaíku hafa heldur fleiri dáið að tiltölu heldur en í Finnlandi.
Malta er eina ríkið í Evrópubandalaginu, sem hefur heila eyju út af fyrir sig, líkt og þau ríki sem hér hefur verið fjallað um. Malta er nokkru fjölmennari en Ísland, með rúmlega 440 þúsund íbúa. Þar hafa greinst rúmlega 26 þúsund einstaklingar með kóvid, og 350 hafa dáið úr veikinni þar. Árangur Möltu er langverstur af öllum þessum eyríkjum og jafnaðist á við að hér á Íslandi hefðu dáið um 280 manns úr veikinni í stað þeirra 29 sem í raun hafa dáið hér. Árangur Möltu er samt miklu betri en árangur Svía og Pólverja, svo dæmi sé tekið, enda er Malta eyja.[1]
Víða um heim virðist farsóttin vonda enn vera í sókn, og er talað um þriðju og fjórðu bylgju í því sambandi. Talið er að ný afbrigði veirunnar séu enn hættulegri en þau afbrigði sem við Íslendingar höfum kynnst til þessa. Mikilvægt er að bægja þessari veiru alfarið frá landinu með ströngum sóttvörnum og sóttkvíum, allt þar til flestir landsmenn hafa verið bólusettir, sem vonandi verður nú á allra næstu mánuðum. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að hlusta minna á vond ráð talsmanna ferðaþjónustunnar en þau hafa hingað til gert, og hlusta þess í stað meira á fagleg ráð þeirra sem þekkingu og vit hafa á málunum: lýðheilsufræðinga, farsóttarlæknis og góðra hagfræðinga.
[1] Upplýsingar um fjölda þeirra sem greinst hafa smitaðir af kóvid eða dáið úr sjúkdóminum eru aðgengilegar á vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, who.int. Ég hef tölurnar þaðan, og skoðaði síðuna 15. mars 2021. Upplýsingar um mannfjölda í þeim löndum sem hér er fjallað um eru af síðunni worldometers.info og skoðaðar á sama tíma.