Félag um 18du aldar fræði og tvær vinkonur*

Fyrir fáeinum árum gekk ég í ansi fínan félagsskap sem heitir Félag um 18du aldar fræði. Formaður þessa góða félags heitir Erla Dóris Halldórsdóttir. Félagið heldur litlar ráðstefnur þrisvar til fjórum sinnum á ári, og ég hef nokkrum sinnum mætt og hlustað á forvitnileg erindi um sögu þjóðarinnar. Ráðstefnurnar hafa verið haldnar í Þjóðarbókhlöðunni. Félagið stendur líka fyrir fróðlegum ferðum um ýmsar söguslóðir, og ég hef farið í eina slíka ferð, sem reyndist bráðskemmtileg og raunar sérlega merkileg fyrir mig, því að í ferðinni fræddist ég óvart um formóður mína og forföður í 8da lið, en ég hafði ekki haft hugmynd um það góða fólk áður en ég fór í ferðina. Þessi ferð var farin nú í vor.

En í gær hélt Félag um 18du aldar fræði ráðstefnu þar sem ungir sagnfræðingar kynntu rannsóknir sínar. Þessir sagnfræðingar hafa rannsakað sögu landsins á 18du og raunar líka 19du öld. Þetta voru fjórir sagnfræðingar, þau Arnheiður Steinþórsdóttir, Unnur Helga Vífilsdóttir, Kolbeinn Sturla G. Heiðuson og Þórey Einarsdóttir. Í stuttu máli voru öll erindin stórfróðleg og skemmtileg og sagnfræðingarnir ungu mega vera stoltir af framlagi sínu, og við sem vorum svo heppin að mæta erum margs vísari. Ég gleymdi mér yfir erindunum og tók engar ljósmyndir.

En þegar ráðstefnunni lauk sá ég að þær Erla Dóris og Lilja Valdimarsdóttir hornleikari voru að stinga saman nefjum. En þarna kom í ljós að þær hafa þá þekkst síðan þær voru sjö ára. Þær voru saman í bekk í barnaskóla. Þar sem sagnfræðingarnir góðu voru hættir að tala og ég var ekki lengur með allan hugann við fróðleikinn sem kom fram hjá þeim, hafði ég rænu á að taka ljósmynd af þessum tveimur góðu vinkonum mínum, þar sem þær stóðu með ljúft bros á vörum og voru að hugsa til þess þegar þær voru saman í sjö ára bekk. Kannski flaug hugur þeirra til þess þegar þær voru í skólastofunni að syngja sönginn góða Í skólanum, í skólanum. Og hér eru myndirnar af þeim skólasystrum, allnokkru eftir að þær voru saman í sjö ára bekk:

Lilja Valdimarsdóttir hornleikari og Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur.

~ ~ ~