[Ég sendi styttri minningargrein um Gunnar í Morgunblaðið sem birtist á útfarardegi hans, 22. febrúar 2024.]
Ég kynntist Gunnari Árnasyni þegar við vorum ungir námsmenn. Gunnar var eldri en ég. Hann var myndarlegur, grannur og hávaxinn. Hann var alltaf teinréttur í baki, bar sig vel og klæddi sig smekklega. Gunnar var yfirvegaður í fasi. Hann var ekki framfærinn, raunar frekar hlédrægur en hafði gott skopskyn og gat verið glaðvær.
[Gunnar J. Árnason. Mynd fengin frá fjölskyldu Gunnars, hún var tekin árið 2010, löngu eftir að við umgengumst sem mest.]
Við vildum tileinka okkur heimspeki. Sú grein tengdi okkur en ekki síður áhugi okkar á listhræringum samtímans. Hann var nýkominn úr veturlangri dvöl í New York með Hannesi Lárussyni myndlistarmanni. Þar voru þeir báðir að læra myndlist.
Um langt skeið hefur borið talsvert á hástemmdri og torskiljanlegri umræðu um listir hjá myndlistarkennurum. Þeir Gunnar og Hannes fengu auðvitað sinn skammt af slíku og komust að þeirri niðurstöðu að þeir yrðu að læra heimspeki til að geta lag sjálfstætt mat á málflutning af því tagi. Og til þess fóru þeir í Háskóla Íslands. Þar kynntist ég þeim. En ég kom úr allt annarri átt.
Þrátt fyrir það áttum við Gunnar báðir rætur í Vesturbænum. Þar bjuggu föðurömmur okkar nánast í sama hverfi, en þær voru á svipuðum aldri og það var stutt á milli húsanna. Mér sýnist nú, þegar ég athuga málið á aðgengilegu korti á vef Reykjavíkurborgar, að það séu eitthvað um 200 metrar á milli húsa þeirra. Samt veit ég ekki til að þessar konur hafi þekkst.
Gunnar og Kristinn bróðir hans bjuggu í húsi ömmu þeirra á Sólvallagötunni. Ég man ekki vel eftir henni en kom samt með Gunnari upp til hennar í einhver skipti. Mér hafa alltaf verið minnisstæðar svarthvítar myndir í römmum á veggjum í stofunni, þetta voru ljósmyndir af styttum sem grískir listamenn gerðu fyrir um 2000 til 2500 árum. Mér finnst að þarna hafi verið myndir af Afródítu og Sókratesi og kringlukastaranum og líklega fleiri myndir. Ég varð hrifinn af þessum myndum. Mér hefur alltaf fundist þessar svarthvítu myndir lýsandi fyrir jarðveginn sem Gunnar spratt úr. Hann var alinn upp í mjög menningarlegu umhverfi og þess sá alla tíð stað í fasi hans og viðhorfum. En ekki er hægt að segja annað en að það hafi verið mikill munur á andblæ svarthvítu ljósmyndanna í kyrrlátri stofunni á hæðinni og á pönktónlistinni sem þeir Gunnar og Kristinn spiluðu stundum niðri í kjallara. En þar spiluðu þeir oft alveg glænýja underground tónlist. Öll tónlist var auðvitað spiluð af plötum, kannski litlum singles-plötum og af segulböndum. Þessi tónlist kom til dæmis í ferðatöskunni frá New York, en þar dvöldu þeir báðir, hvor í sínu lagi, nokkuð við nám á þessum árum. En þeir bræður áttu til að panta tónlist frá útlöndum og þá kom hún til þeirra með póstinum. Þannig pantaði Gunnar til dæmis frá útlöndum hið frábæra albúm The Metal Box eftir PIL, Public Image Ltd, sem kom fyrst út árið 1979.
Reyndar spiluðu þeir bræður ekki síður klassíska tónlist, og ég man eftir að Gunnar var á tímabili mjög upptekinn af sellósvítum. Það voru Sellósvíturnar sex eftir Jóhann Sebastian Bach í flutningi Pablo Casals, og þær voru á LP hljómplötum. Talið er að Bach hafi samið svíturnar á árunum 1717 – 1723. En upptökurnar með hljóðfæraleik Casals munu vera frá árunum 1936 – 1939.[1]
Gunnar var heimsmaður og áhugasvið hans var vítt, allt frá hinu forna Grikklandi til nútímasenunnar í myndlist, bókmenntum og tónlist. Bókmenntasmekkur Gunnars var reyndar víðfeðmur líkt og smekkur hans á tónlist. Ég man til dæmis hve hrifinn hann var af Dagbókum Concourt bræðra, þeirra Edmunds og Jules de Concourt, en þessar dagbækur voru skrifaðar á árunum 1850 – 1870 og svo áfram af þeim bróðurnum sem lengur lifði. Gaman var að hlusta á frásagnir Gunnars af þessum bræðrum.
En Gunnar hafði samt mestan áhuga á myndlist og heimspeki. Hann hafði sótt mörg helstu listasöfn heimsins og drukkið myndlistina í sig áður en við kynntumst og líka lært og stundað myndlist sjálfur. Eina sýningu sá ég á verkum hans, það var lítil sýning í Gallerí Gangi hjá Helga Þorgils Friðjónssyni. Gunnar sýndi þar verk sem voru úr saumuðu efni. Lágmyndir sem kannski má kalla svo, úr textíl, einskonar hanskar. Verkin komu mér á óvart.
Þrátt fyrir sameiginlegan áhuga okkar á myndlist og heimspeki og endalaus samtöl um þau efni, voru áherslur okkar ólíkar. Ég hafði af einhverjum ástæðum ekki svo mikinn áhuga á fagurfræði og ekki heldur á fræðum Hegels, sem þeir Gunnar og Hannes höfðu í hávegum. En allir höfðum við áhuga á íslenskri byggingararfleifð og kunnum að meta íslenska torfbæinn. Þegar Hannes Lárusson tók upp úr 1984 að gera upp torfbæinn þar sem hann fæddist, í Austur Meðalholtum í Flóa, fengum við Gunnar báðir tækifæri til að kynnast hinu forna handverki og hjálpa til við að hlaða torfveggi.
[Austur Meðalholt í Flóa. Ljósmynd tekin um 1962, rúmum tuttugu árum áður en tekið var að gera bæinn upp og við Gunnar fengum að kynnast gömlu handverki þar. Þarna er nú rekið safnið Íslenski bærinn.]
Þegar námsárum lauk og annríki brauðstrits og fjölskyldulífs tók við fyrir alvöru dró úr sambandi okkar Gunnars, eins og svo oft gerist.
Fyrir nokkrum árum fékk ég svo loks áhuga á fagurfræði. Það varð gott tilefni til að hringja í Gunnar. En svo var hann orðinn veikur. Við töluðum saman í síma í einhver skipti eftir það og hann bauðst til að lána mér bækur um fagurfræði. En það varð því miður ekkert úr að við hittumst eftir að hann veiktist.
Í mínum huga er bjartur ljómi yfir minningunni um þennan góða dreng. Það var lán að fá að kynnast honum. Ég vil votta allri fjölskyldu hans mína innilegustu samúð.
[1] Ég vil þakka Kristni Árnasyni fyrir upplýsingar. Kristinn minnti mig á að sellósvíturnar voru sellósvítur Bachs og Pablo Casals lék á sellóið. Ég hafði heyrt tónlistina á The Metal Box áður en ég kynntist Gunnari. Þetta albúm var afar sjaldséð á þessum tíma. Kristinn minnti mig á (sem ég man núna) að Gunnar hafði pantaði albúmið frá útlöndum.