Forsetinn og áhrifavald hans *

Forseti Íslands hefur stöðu sem minnir á konunga eða drottningar á Norðurlöndum. Vissulega er sá munur á að forsetinn hefur í seinni tíð þurft að endurnýja umboð sitt í kosningum öðru hvoru. Á móti kemur að þjóðin hefur ávallt endurnýjað umboð forsetans í kosningum til þessa.

Þýðingu forsetaembættisins má ráða af því að þegar forseti Íslands bregður sér til útlanda þarf samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar þriggja manna nefnd forsætisráðherra, forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar að taka við stjórnarstörfum hans. Ástæðan er sú að samkvæmt 19. gr. stjórnarskrárinnar þarf undirskrift forsetans undir lagafrumvörp og stjórnarerindi til að þau fái gildi, en undirskrift ráðherra dugir ekki til ein og sér.

Stjórnarstörf forsetans verða auðvitað að teljast veigamikil frá sjónarmiði stjórnskipunar í landinu, í ljósi þess að mikilvægar ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnarinnar fá ekki gildi nema með undirskrift hans. En stjórnarstörfin virðast ekki þurfa að vera tímafrek, þegar allt er með felldu í landinu. Ástæðan er sú að forsetanum er ekki ætlað að taka annan þátt í þessum ákvörðunum við venjulegar aðstæður en að fullgilda þær með undirskrift sinni.

~ ~ ~

Forsetinn hefur alls ekki það hlutverk að leggja sjálfstætt mat á ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnar, ekki frekar en drottningin í Danmörku eða kóngarnir í Noregi og Svíþjóð. Embætti forsetans er auk þess ekki þannig úr garði gert að forsetinn geti svo auðveldlega staðið í mikilli endurskoðun á þessum ákvörðunum. Staðreyndin er líka sú að forsetinn hefur næstum alltaf staðfest ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis. Hann hefur aðeins þrisvar sinnum í sögu lýðveldsins synjað Alþingi um að staðfesta lög frá því, en virðist ávallt hafa staðfest skipun embættismanna ríkisins.

Þá ályktun, að stjórnarstörf forsetans séu ekki mjög tímafrek, virðist mega draga af upplýsingum um ferðalög forsetans erlendis, en forseti Íslands hefur dvalið erlendis eða verið þar á ferðalögum í um það bil þrjá mánuði á ári undanfarið.[1]

Þegar forsetinn fer til útlanda þarf eins og áður sagði þriggja manna nefnd að taka við stjórnarstörfunum. Þessi þriggja manna nefnd er ekki skipuð undirtyllum í kerfinu, heldur æðstu mönnum ríkisstjórnar, Alþingis og Hæstaréttar.

Það er ef til vill ekki jafn tímafrekt fyrir forsætisráðherra og forseta Alþingis að leysa forsetann af við stjórnarstörf eins og það er fyrir forsetann sjálfan að sinna þessum störfum, vegna þess að þessir menn sinna löggjafarstörfum og stjórn ríkisins frá degi til dags og þekkja þannig vel til þeirra mála sem til umfjöllunar eru. En líklega má búast við að það sé jafn tímafrekt fyrir forseta Hæstaréttar að sinna þessum störfum, eins og það er fyrir forsetann sjálfan.

Það er áreiðanlega stundum annasamt að stýra ríkisstjórn, Alþingi eða Hæstarétti. Kosturinn við að vera við stjórnvölinn er auðvitað sá, að sá sem stjórnar getur brugðist við vandamálum sem hann verður áskynja um, til dæmis með lagabreytingum. Forseti Alþingis er ávallt þingmaður og forsætisráðherra er þingmaður líka, þó að það sé raunar ekki regla. Þingmenn geta lagt fram lagafrumvarp og þar með talið frumvörp til breytinga á stjórnarskrá. Forseti Hæstaréttar er sérfróður í lögum og þar með sérfróður um hvernig lög þurfa að vera úr garði gerð. Af því virðist mega draga þá ályktun, að væri aukið vinnuálag sem fylgir utanlandsferðum forseta Íslands óhóflegt, ætti þessum háttsettu embættismönnum að vera í lófa lagið að gera ráðstafanir til að bæta úr. Ein slík ráðstöfun gæti til dæmis verið sú að gera tillögu um stjórnarskrárbreytingu um að varaforseti sé kosinn samhliða forsetanum. Slík tillaga hefur ekki komið fram.

Þar með virðist sú ályktun blasa við, að viðbótar vinnuálag sem leggst á hina önnum köfnu forystumenn Alþingis, ríkisstjórnar og Hæstaréttar við utanferðir forsetans séu ekki mikið vandamál og taki ekki óhóflega mikinn tíma frá þeim.

~ ~ ~

Ástæða þess að ég hef orð á því hversu mikill tími fari í stjórnarstörfin, sem handhafar forsetavalds taka að sér í fjarveru forsetans, er sú að mér sýnist ekki fjarri lagi að líta svo að hann gefi vísbendingu um þann tíma sem forsetinn hafi að öðru jöfnu til að beita áhrifavaldi sínu. Ég held að allur annar tími en þessi tiltölulega skammi tími sem fer í stjórnarstörfin geti nýst forsetanum til að sinna verkefnum sem hann hefur tiltölulega frjálsar hendur um, og þessi tími geti líka með einum eða öðrum hætti talist helgaður áhrifavaldi forsetans.

Forsetinn hefur margvíslegt áhrifavald í krafti stöðu sinnar. Áhrifavaldið stafar ekki síst af því mikla umboði sem forsetanum hlotnast af því að vera eini þjóðkjörni embættismaður landsins, og sá einstaklingur sem falið er að fullgilda lagafrumvörp frá Alþingi og ýmsar stjórnarathafnir ríkisstjórnarinnar með penna sínum. Áhrifavaldið fær hann einnig af því að hann er sjálfstæður í störfum sínum og enginn er yfir hann settur, og hann er fulltrúi landsins gagnvart erlendum ríkjum. Þegar hann talar, talar hann í orðastað þjóðarinnar og landsins.

Áhrifavald forsetans er við venjulegar aðstæður ekki síður mikilvægt en stjórnarstörf hans. En þá vaknar spurningin: hvernig á forseti Íslands að beita áhrifavaldi sínu?

Um það kjósum við í kosningum.

~ ~ ~

Ég tel að forseti Íslands eigi að beita áhrifavaldi sínu til að vinna í þágu langtímahagsmuna þjóðarinnar. Eðli málsins samkvæmt eru þingmenn og stjórnmálamenn almennt uppteknir af vandamálum líðandi stundar, sem stundum geta virst svo áríðandi að langtímahagsmunir geta gleymst. Stjórnmálafólk hefur líka ótryggari aðstöðu í sínum valdastólum en forsetinn, enda eru stjórnmálaátökin óvægin.

Ég tel að langtímahagsmunir þjóðarinnar felist fyrst og fremst í því að náttúrufar í landinu verði áfram gott, að þjóðin haldi tungumáli sínu og að menning í landinu dafni. Forsetinn á því að tala máli náttúruverndar, tungumálsins og mennta og menningar. Það má líka orða þetta svo að forseti Íslands eigi að beita áhrifavaldi sínu á svipaðan hátt og þau Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson. Vigdís lagði mikla áherslu á náttúruvernd, á menningarmál og á vernd tungumálsins í sinni forsetatíð, og Ólafur Ragnar hefur með sínum hætti lagt sérstaka áherslu á náttúruvernd, sér í lagi á loftslagsmálin, auk þess sem hann hefur einnig lagt rækt við ýmisleg menningarleg málefni.

~ ~ ~

[1] Ég hef ekki fundið góða samantekt um fjarveru forseta Íslands frá landinu langt aftur í tímann. Samt er til ítarleg greinargerð um ferðalög forsetans á rúmlega tveggja ára tímabili, frá því að núverandi kjörtímabil hófst 1. ágúst 2012 og út árið 2014. Þessi greinargerð er svar forsætisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur um efnið, á vef Alþingis. Sjá  http://www.althingi.is/altext/144/s/0887.html . Þetta svar nær yfir árin 2014, 2013 og síðustu mánuði ársins 2012. Á árinu 2014 var forseti erlendis í samtals 99 daga. Á árinu 2013 var hann erlendis í 94 daga. Drjúgur hluti þessara ferðalaga var í embættiserindum. Hvort sem forseti fer í einkaerindum eða opinberum erindum úr landi, þurfa handhafar forsetans að leysa hann af.

Heimildir um ferðalög forsetans og afleysingar handhafanna er annars hægt að fá í auglýsingum í Stjórnartíðindum, sjá: https://www.stjornartidindi.is/ , en gefnar eru út tilkynningar í Stjórnartíðindum um það þegar forseti bregður sér af landi og handhafar taka við og einnig þegar hann kemur aftur heim og tekur við stjórnarstörfum. Ég hef ekki gefið mér tíma til að taka saman tölur upp úr þessum gögnum, þó að það sé nú ekki mjög tímafrekt. En í fljótu bragði sýnist mér af þessum gögnum að forsetinn hafi verið erlendis í 27 daga á fyrstu fimm mánuðum ársins 2016, en hann fór nokkrar mislangar ferðir á tímabilinu. Ef horft er til áranna 2013, 2014 og fyrstu fimm mánuða ársins 2016 virðist ekki fjarri lagi að áætla að forsetinn hafi verið um það bil fjórðung úr ári erlendis á ári hverju undanfarið.