[Færsla upphaflega birt á facebook.]
Mig langar að hrósa viðgerðamönnunum sem vinna hjá Nesdekkjum úti á Granda.
Bílstjórahurðin á bílnum mínum hefur verið aðeins biluð undanfarnar vikur, og það hefur tafist hjá mér að láta gera við hana. En áðan datt mér í hug að bera vandann upp við dekkjaviðgerðamennina úti á Granda, þeir hafa margoft verið mér hjálplegir um ýmislegt smálegt tengt bílnum í gegnum árin. Að þessu sinni hitti ég þar fyrir menn sem ég hef ekki áður talað við, mínir helstu kunningjar þarna voru greinilega í sumarfríi. En það kom ekki að sök. Ungur maður var strax tilbúinn að skoða málið. Hann skoðaði hurðina dálítið vel, og bar vandann svo upp við eldri vinnufélaga sinn, sem skoðaði hurðina enn betur. Sá talaði enga íslensku, en var greinilega flinkur viðgerðamaður. Þeir litu á mig og sögðu, að þeir væru tilbúnir að reyna viðgerð, það gæti dugað að sjóða svolítið í rifu, sem myndast hefði á boddíi bílsins, á stað þar sem önnur hjörin er festing milli boddís og hurðar. Ég fékk mér kaffi og leit í bók á notalegri kaffistofunni. Síðan leið svolítil stund, og svo kom ungi maðurinn fram og sagði mér að bíllinn væri tilbúinn. Ég sagði að hann væri snillingur. Viðgerðin var ódýr. Ég spurði þá hvort ég mætti hrósa þeim á facebook. Já endilega, sögðu þeir, en ekki kvarta yfir okkur þar! Ég sagðist halda, að það gæti ekki verið neitt tilefni til að kvarta. Enda kom í ljós að bílstjórahurðin var eins og ný, þegar ég settist inn í bílinn að aflokinni viðgerð.