Tillaga um að leggja borgarskjalasafn niður, 3.

Borgarstjóri kom með óvænta og furðulega yfirlýsingu í kvöldfréttum útvarps í gærkvöldi. Samkvæmt fréttinni er tilgangurinn með því að leggja borgarskjalasafn niður og fela verkefnin í hendur Þjóðskjalasafns sá að spara fé. Borgarstjóri sagði svo að rekstur “algerlega sjálfstæðs” borgarskjalasafns myndi kosta um 7,5 til 7,9 milljarða samtals á næstu sjö árum. Borgarstjóri getur ekki átt við annað en að rekstur safnsins í óbreyttri mynd muni kosta þetta.

Samkvæmt nýlegum fréttum kostar rekstur safnsins um 180 millj. kr. á hverju ári og þar af er húsaleiga um 60 millj. kr. Það er ekki hægt að fá sjö til átta milljarða sem heildarkostnað af rekstri stofnunar í sjö ár, ef rekstur hennar kostar 180 milljónir króna á ári.

Ráðgátan verður sífellt meiri. Borgarstjóri hefur lagt fram tillögu til borgarráðs um að leggja niður mikilvæga stofnun í borginni. Sagnfræðingar hafa mótmælt tillögunni og sagt hana vanhugsaða. Forstöðumaður stofnunarinnar hefur lýst því yfir að hann hafi ekki vitað af því að tillagan yrði lögð fram og ekki verið hafður með í ráðum. Og nú verður ekki betur séð en að borgarstjóri telji nauðsynlegt að spara í rekstri borgarinnar með því að leggja borgarskjalasafnið niður, vegna þess að rekstur þess kosti um milljarð á ári, kannski rúmlega það – þegar raunveruleikinn er sá að reksturinn kostar aðeins um 180 millj. kr. á ári. Hvernig stendur á því að borgarstjórinn talar svona?

https://www.ruv.is/utvarp/spila/kvoldfrettir-kl-18-00/25296/a184rg

[Fréttin byrjar þegar liðnar eru tæpar átta mínútur af fréttatímanum.]