[Hér er annar póstur minn um tillögu borgarstjóra á 5696 fundi hennar þann 16. febrúar um að leggja borgarskjalasafn niður og fela verkefni hennar í hendur Þjóðskjalasafns. Rökstuðningur fyrir tillögunni er að svo stöddu trúnaðarmál, sbr. fundargerð borgarráðs: https://reykjavik.is/fundargerdir/borgarrad-fundur-nr-5696 ]
Í fréttum í gær kom fram að borgarstjóri hefur fundið leið til að spara í rekstri borgarinnar. Leiðin er sú að leggja niður Borgarskjalasafn og senda gögnin sem Borgarskjalasafn varðveitir beinustu leið upp í Þjóðskjalasafn. Væntanlega muni borgin svo greiða svolítið framlag til Þjóðskjalasafns á hverju ári í framtíðinni.
Í fréttum kom fram að kostnaður við rekstur Borgarskjalasafns hafi numið um 180 milljónum kr. á ári. Til þess að sparnaður náist fram með þessu ráði, verðum við að ætla að hugmynd borgarstjórans sé sú að Þjóðskjalasafn muni fá minna en 180 millj. kr. á ári í framlag frá borginni vegna þessa. Kannski borgarstjórinn hafi hugsað sér að framlagið verði 150 milljónir á ári? Eða kannski bara 100 milljónir á ári? Það er augljóst að til þess að borgin geti sparað með þessu, verður árlegt framlag borgarinnar vegna þessa málaflokks að verða sem allra minnst.
Borgarstjórinn er þekktur fyrir fagleg, nútímaleg og lýðræðisleg vinnubrögð, svo þekktur að hann er líklega maðurinn sem fann upp þennan skemmtilega frasa. En að þessu sinni fólu hin faglegu, nútímalegu og lýðræðislegu vinnubrögð sem borgarstjórinn okkar hefur svo oft hreykt sér af ekki í sér að hugmyndin væri kynnt borgarskjalaverði áður en hún var kynnt í fjölmiðlum. Þess vegna má efast um hversu vandaður undirbúningurinn hefur verið og hvort skjalavörðurinn hafi yfirleitt nokkuð verið spurður ráða.
Þá má geta þess að tillaga borgarstjórans er merkt sem trúnaðarmál í fundargerð borgarráðs, þannig að almenningi gefst ekki kostur á að sjá rökstuðning fyrir henni.
Mér sýnist að útgjöld við rekstur Þjóðskjalasafns séu á milli 500 og 600 millj. kr. á ári, skv. nýjasta ársreikningi sem ég hef séð (2021). Fjárveiting það ár var um 380 millj. kr. Þar til viðbótar koma umtalsverðar tekjur stofnunarinnar af veittri þjónustu (seld vara og þjónusta td. rúmar 70 millj. 2021) og önnur framlög ríkisstofnana (rúmar 50 millj. 2021). Halli var á rekstrinum, sem merkir að rekstur Þjóðskjalasafns einkennist af fjárskorti.
Í umræðu um þetta mál hafa komið fram sjónarmið um með því að sameina skjalasöfn ríkis og borgar kunni að vera unnt að reka sameinað safn af myndarskap. En hver getur búist við að borg, sem vill spara í þessum málaflokki, og ríki, sem raunverulega stundar sparnað í málaflokkinum og rekur sitt safn með naumum fjárframlögum, muni sameinuð taka sig til og reka nýtt safn af myndarskap? Og hversu marga milljarða skyldu flutningar safns og breytingar á húsnæði þeirra kosta þegar upp verður staðið?
Því miður virðist hér vera enn eitt dæmið um lélega stjórnsýslu og léleg stjórnmál sem stunduð eru í landinu, undir yfirskyni „faglegra, nútímalegra og lýðræðislegra“ vinnubragða.
~ ~ ~