Í ritgerðasafninu Hættumörk er þýðing mín á ritgerðinni ‘The Market for Lemons’ : Qualitative Uncertainty and the Market Mechanism eftir George A. Akerlof. Hún birtist fyrst í Quarterly Journal of Economics, 89, (1970), bls. 488-500. Hún heitir á íslensku Bílamarkaðurinn: Markaðskerfið og óvissa um gæði. Akerlof fékk Nóbelsverðlaun fyrir ritgerðina árið 2001. Í sama ritgerðasafni má einnig lesa þýðingu mína á ritgerð eftir Kenneth Arrow, sem fékk sömu verðlaun, en fyrir aðrar ritsmíðar, árið 1972. Í Fjármálatíðindum birtist svo þýðing mín á ritgerðinni The Nature of the Firm eftir Ronald Coase. Hún kom út í hagfræðitímaritinu Economica árið 1937, en höfundurinn fékk Nóbelsverðlaun fyrir hana árið 1991, meira en hálfri öld síðar. Þá þýddi ég ritgerð um íslensk efnahagsmál eftir Joseph Stiglitz fyrir Fjármálatíðindi. Hún heitir á frummálinu Monetary and Exchange Rate Policy in Small Open Economies: The Case of Iceland og birtist í Fjármálatíðindum árið 2002. Ári fyrr hafði Stiglitz fengið Nóbelsverðlaun fyrir allt aðrar ritsmíðar, en þeir Stiglitz og Akerlof fengu verðlaun á sama tíma, ásamt A. Michael Spence fyrir að hafa lagt grunn að kenningu um markaði með ósamhverfum upplýsingum.